Í yfirlýsingu Air Atlanta segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins að verkfall flugvirkja Samgöngustofu bitni verulega á rekstri fyrirtækisins.

Flugvélar í eigu félagsins sem flugvirkjar Samgöngustofu áttu að skoða eru staðsettar í Sharjah í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Vegna verkfalls flugvirkja eru þá orðnar seinkanir á skráningu vélanna. Að sögn Hannesar Hilmarssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins mun þessi seinkun hafa gríðarlega neikvæð áhrif á rekstur Air Atlanta.

„Ef af verður og þessar flugvélar komast ekki í rekstur á þeim tíma sem áætlað var mun félagið verða fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna umræddrar seinkunnar.  Ennfremur mun orðspor félagsins bera hnekki og áralöngum viðskiptasamböndum stefnt í voða með ófyrirséðum afleiðingum.“

Þess að auki segir Hannes að um það bil 250 manns starfi hjá fyrirtækinu á Íslandi og að þar sem allar tekjur AA komi erlendis frá skili félagið um 5 milljörðum króna til íslenska hagkerfisins í formi gjaldeyris.

„Því er það gríðarlega mikilvægt að sem minnst röskun verði á rekstrarumhverfi félagsins og verkfallsaðgerðir flugvirkja Samgöngustofu hafi ekki þau áhrif sem fyrirséð er á verkefni og viðskiptavini félagsins.”