Héðinn hf., sem á rætur að rekja allt aftur til ársins 1922, var rekinn með 73,6 milljóna hagnaði árið 2020 miðað við 261 milljóna króna tap árið 2019 samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur félagsins námu 4,18 milljörðum króna árið 2020 miðað við 3,75 milljarða króna árið áður. Framleiðslukostnaður hækkar um 100 milljónir króna og nam ríflega 2,5 milljörðum króna og þá námu laun og launatengd gjöld 1,4 milljörðum og hækka um 134 milljónir á milli ára. Fjöldi ársverka var 107 miðað við 106 árið áður.

Þá nam rekstrarhagnaður félagsins 18 milljónum miðað við 340 milljóna rekstrartap árið áður. Jákvæður gengismunur upp á 50 milljónir króna miðað við 15 milljónir á fyrra ár bætir afkomuna einnig nokkuð milli ára.

Eignir í árslok námu 1,65 milljörðum króna og eigið fé 1,04 milljörðum króna en skuldir voru ríflega 600 milljónir króna. Lagt er til að ríflega 100 milljónir verði greiddar í arð vegna starfsemi síðasta árs.

Í skýrslu stjórnar segir að rekstur Héðins hafi orðið fyrir skakkaföllum árið 2020 vegna heimsfaraldursins þó betur hafi farið en á horfði fyrir ári. „Mörg verkefni riðluðust verulega á árinu og fyrirséð að svo verður áfram á árinu 2021, sérstaklega stór verkefni sem eru erlendis og erfitt verður að halda framvindu þeirra svo sem samningar kveða á um. Gera má ráð fyrir tekjuminnkun á árinu 2021,” segir í skýrslunni.

Vélsmiðjan Héðinn var stofnuð í Reykjavík haustið 1922 af þeim Markúsi Ívarssyni, vélstjóra, og Bjarna Þorsteinssyni, vélfræðingi. Á vef Héðins segir að félagið sé enn í eigu fjölskyldu stofnendanna auk stjórnenda félagsins. Fyrirtækið starfar sviði málmiðnaðar- og þjónustu, en helstu deildir félagsins eru tæknideild, renniverkstæði og plötuverkstæði auk þess sem fyrirtækið sinnir meðal annars skipa- og útgerðarþjónustu.