Breska fyrirtækið Omnifone sem rekur tónlistarstreymisþjónustur hefur í fyrsta sinn í níu ára sögu fyrirtækisins skilað hagnaði. Á rekstrarárinu sem endar í apríl 2012 hagnaðist félagið um 2,9 milljónir punda, sem samsvarar um 530 milljónum íslenskra króna. Árið áður tapaði félagið 21,7 milljón punda. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Jeff Hughes, forstjóri Omnifone segir að barátta gegn ólöglegu niðurhali sé á meðal ástæðna á bak við viðsnúning fyrirtækisins. Aðgerðir á borð við aðgangslokanir á The Pirate Bay og lokun Demonoid BitTorrent hafi hjálpað til við að auka tekjur fyrirtækisins.

Hughes segir fyrirtækið hafa fjárfest fyrir um 37,7 milljónir punda á síðustu fimm árum og að nú sé tónlistarbransinn kominn fyrir ákveðið horn í málum er snúa að ólöglegu niðurhali. Bransinn hafi verið sá fyrsti sem varð fyrir barðinu á ólöglegu niðurhali þar sem tónlistarskrár eru litlar og henta vel til niðurhals. En þar af leiðandi hafi bransinn einnig verið sá fyrsti til að aðlagast breyttum aðstæðum. Omnifone rekur meðal annars þjónustuna Sony´s Music Unlimited sem veitir notendum aðgang að tónlist gegn gjaldi.

Nú stendur til að bæta við fleiri möguleikum fyrir neytendur, til að mynda ódýrari áskriftir sem veiti að einhverju leyti minni þjónustu.