Landsvirkjun hefur gert nýja samninga við sölufyrirtæki rafmagns. Meðalverð til þeirra lækkar um 2,6%. Vegna nýju samningana sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn á þrjú sölufyrirtæki á þriðjudaginn þar sem spurt hvort lækkunin myndi skila sér í lækkun gjaldskráa þeirra en þessi fyrirtæki selja meðal annars orku til heimila og lítilla fyrirtækja. Einnig var spurt hversu stór hluti orkunnar væri keyptur af Landsvirkjun.

Orka náttúrunnar svaraði því til að "um helmingur sölu ON á rafmagni á almennum markaði" væri fenginn frá Landsvirkjun. Enn fremur kom fram í svari ON að fyrirtækið myndi opinbera breytta gjaldskrá þegar hún tæki gildi.  HS Orka og Orkusalan svöruðu ekki fyrirspurninni.

Hafa verður í huga að þó meðallækkun á samningum Landsvirkjunar til sölufyrirtækjanna nemi 2,6% þá eru kaup á rafmagni einungis um þriðjungur af rafmagnsreikningum heimilanna. Ríflega tveir þriðju hlutar eru kostnaður vegna dreifingar og opinberra gjalda, eins og virðisaukaskatts og jöfnunargjalds.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .