Gróflega má áætla að erlendir ríkisborgarar skili töluvert meira í ríkiskassann en þeir fái úr honum miðað við tölur frá Ríkisskattstjóra en erlendir ríkisborgarar með skattalega heimilisfesti á Íslandi greiddu tæplega 10 milljarða króna í skatta á síðasta ári.

Þetta kemur fram í skýrslu Fjölmenningarseturs um erlenda ríkisborgara og innflytjendur á Íslandi. Þar kemur líka fram að 17.218 framteljendur í fyrra eru með erlent ríkisfang, eða sjö af hundraði. Erlendir ríkisborgarar stóðu undir 4,1% af skatttekjum ríkisins.

Erlendir ríkisborgarar eru u.þ.b. 8% af vinnuaflinu í landinu. Þó er tæplega fimmti hver einstaklingur á atvinnuleysisskrá með erlent ríkisfang. Pólverjar voru 56% allra útlendinga á atvinnuleysisskrá í júní síðastliðnum en atvinnuleysi meðal Pólverja er í kringum 15% samanborið við 4% atvinnuleysi meðal Íslendinga.