Á sama tíma og gull hefur hækkað um 3,3% í verði það sem af er ári hefur silfur lækkað um 3,1%. Gull er nú 82 sinnum verðmeira en silfur, sem er 27% yfir tíu ára meðaltali þess hlutfalls. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal .

Aukinn verðmunur gulls og silfurs er af sumum sérfræðingum talin vísbending um neikvæða efnahagsþróun. Ástæðan er sú að þegar blikur eru á lofti í efnahagslífinu þá kaupa fjárfestar frekar gull en silfur.

Eins og áður sagði er gull nú 82 sinnum dýrara en silfur. Á síðustu tíu árum hefur verðmunur þessara góðmálma einungis tvisvar áður verið meira en áttatíufaldur. Það gerðist síðast í byrjun árs 2016 og tengdist þá áhyggjum manna af minnkandi hagvexti í Kína og efnahagsþróuninni þar almennt. Þar áður gerðist það í efnahagshruninu árið 2008.