Að sögn Árna Tómassonar, formanns Skilanefndar Glitnis, er ætlun nefndarinnar að selja allar eignir Milestone í Svíþjóð og stefnt að því að því verði lokið innan nokkurra mánaða. Þar eru nú óseld tvö félög og nokkrar smærri eignir.

“Upphaflega stóð til að reyna að hanga á öllum þessum eignum og bíða af sér storm og selja svo þegar betur áraði. Það plan gekk ekki eftir og þá var í raun og veru ekkert annað en að selja þessar eignir á verði – sem ég segi ekki að sé brunaútsöluverð – en verð sem telst ekki gott. Þetta er í raun og veru bent framhald af því að plan sem við vorum að vinna eftir í upphafi gekk ekki eftir. Það má segja að þetta hafi verið plan B,” sagði Árni.

Árni segir að ekki sé hægt að gefa upp söluverð á Moderna Finance í Svíþjóð, sem var í eigu Milestone en er nú undir stjórn skilanefndar Glitnis, en greint var frá því í morgun að nefndin hefði selt bankann Banque Invik í Lúxemborg ásamt dótturfélögum til Scribona Nordic. Að sögn Árna verður haldið áfram að selja en nefndin hefur flutt talsvert af eignum  Milestone til landsins.