Skilanefnd Glitnis mun funda með tilteknum hópi erlendra kröfuhafa nú 11. desember. Þessi sérstaki hópur kröfuhafa hefur lýst yfir áhuga á að koma að málum og undirritað trúnaðaryfirlýsingu þar um.

Um leið hafa þeir heitið því að eiga engi viðskipti með bréf bankans.

Að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, óskaði skilanefndin eftir því að kröfuhafar settu sig saman í hópa eftir hagsmunum sínum og tilgreindu fulltrúa fyrir sína hönd. Það er til að koma í veg fyrir að fundirnir verði of stóri hverju sinni.

Sá hópur sem hittist á fimmtudaginn stendur fyrir hagsmuni mismunandi kröfuhafa. Sumir eru skuldabréfaeigendur, aðrir eru viðskiptabankar og enn aðrir standa fyrir þau sambankalán sem Glitnir tók.

Íslenskir kröfuhafar eru síðan í fjórða hópnum en ekki er gert ráð fyrir veru þeirra á fundinum. Innlánseigendur eru síðan enn einn kröfuhópurinn.

„Við munum gera þeim grein fyrir stöðunni og hvað við höfum verið að gera frá síðasta fundi sem haldinn var fyrir einum mánuði. Um leið munum við óska eftir umboði þeirra vegna stefnunnar. Menn eru að vinna að alskonar framtíðarstefnumótun, meðal annars aðkomu þeirra að eignarhaldi,” sagði Árni í samtali við Viðskiptablaðið.

Gert er ráð fyrir að fundurinn standi í sex tíma og sagði Árni að dagskráinn væri þéttsjkrifuð.

6. febrúar á næsta ári verður síðan stór almennur kröfuhafafundur. Sá fundur er öllum opinn og er í tengslum við greiðslustöðvunina.