Íslandsbanki, skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa,  og íslenska ríkið hafa undirritað samninga um uppgjör á milli gamla og nýja bankans og endurfjármögnun Íslandsbanka.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en umræddir samningar byggja á því rammasamkomulagi sem kynnt var 20. júlí s.l. og felur í sér að skilanefnd Glitnis, fyrir hönd kröfuhafa, á þess kost að eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka fyrir 30. september nk. eða fá greiðslu í formi skuldabréfs, útgefnu af Íslandsbanka, og kauprétti á allt að 90% af hlutafé í bankanum á árunum 2011-2015.

Þá kemur einnig fram að núverandi stjórnarmenn munu sitja áfram í stjórn bankans. Í stjórn bankans sitja: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, formaður, Guðmundur R. Jónsson, Katrín Ólafsdóttir, Martha Eiríksdóttir og Ólafur Ísleifsson.