Skilanefnd Gamla Glitnis hefur í dag ákveðið að gjaldfella öll lán Baugs og tengdra félaga.

Þetta er gert í framhaldi af ákvörðun skilanefndar Landsbanka Íslands hf. um að óska eftir greiðslustöðvun hjá BG Holding ehf., dótturfélagi Baugs Group hf. í Bretlandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skilanefnd Glitnis en skilanefndin telur að við þær aðstæður sem nú eru uppi sé hagsmunum bankans best borgið með því að hann taki yfir þá eignarhluti í Baugi sem Gamli Glitnir hefur að veði til tryggingar lánum sínum til félagsins.

Þá kemur fram að Skilanefnd Glitnis hefur haft fjárhagslega stöðu Baugs til skoðunar um nokkurra mánaða skeið og  hefur í þeim efnum notið ráðgjafar PricewaterhousCoopers og Deloitte í Bretlandi.

„Þrátt fyrir fjölbreyttar aðgerðir undanfarna 12 mánuði, þar sem allir hafa lagst á eitt um að styðja við félagið, blasir við í ljósi mjög veikrar fjárhagsstöðu að félagið mun ekki geta gert upp skuldir sínar við bankann,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að Skilanefnd Glitnis hefur haft til skoðunar þær hugmyndir sem forsvarsmenn Baugs kynntu fyrir íslenskum lánastofnunum.

„Það er mat skilanefndarinnar og ráðgjafa hennar, PricewaterhouseCoopers og Deloitte í Bretlandi, að þær hugmyndir séu í senn óraunhæfar og óframkvæmanlegar,“ segir í tilkynningunni.

„Það er jafnframt mat ofangreindra ráðgjafa og skilanefndar Glitnis, að besta leiðin til að gæta hagsmuna bankans við núverandi aðstæður, sé að vinna með öðrum veðhöfum að því að hámarka verðmæti þeirra eigna bankans sem tengjast Baugi.“

Í tilkynningunni segir að með þessum aðgerðum er meðal annars verið að verja hagsmuni þeirra fyrirtækja sem Baugur er hluthafi í á Bretlandseyjum og þeirra tugþúsunda sem hjá þeim starfa.

„Þar sem ljóst er að Baugi mun ekki takast að efna skuldbindingar sínar við gamla Glitni og þar sem fyrir liggur að aðrar fjármálastofnanir munu ekki taka þátt í endurskipulagningu félagsins er það mat skilanefndar Glitnis að fyrrnefndar aðgerðir séu óhjákvæmilegar. Skilanefndin telur jafnframt að eins og málefnum félagsins er nú komið þjóni umbeðin greiðslustöðvun Baugs Group á Íslandi ekki tilgangi,“ segir í tilkynningunni.