Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að skilanefndin hefði átt fund með fulltrúum Tryggingarfelags Føroyar sem greindi frá því fyrr í dag að það stefndi að því að hefja starfsemi á Íslandi fyrir árslok 2009.

Skilanefnd Glitnis ræður nú yfir tryggingafélaginu Sjóvá en Árni sagði að fundurinn með Færeyingunum hefði verið fyrir nokkru síðan og þar hefði komið fram áhugi Færeyinga á að hasla sér völl hér á landi. Hann tók fram að engar ákvarðanir hefðu verið teknar eða framhald um frekari fundarhöld.

Á fundi Færeyinga fyrr í dag kom fram að álitlegasti kosturinn er sá að kaupa að fullu eða að hluta tryggingafélag í rekstri og ráðamenn TF sjá ýmsa möguleika í þeirri stöðu.

Þeir hafa undanfarna mánuði rætt við fulltrúa tryggingafélaga, banka og íslenskra stjórnvalda og kynnt áhuga sinn og fyrirætlanir um fjárfestingar í tryggingaþjónustu á Íslandi.