Skilanefnd Glitnis segir að ef að í ljós kemur að mistök hafi verið gerð að hálfu gamla Glitnis muni hún gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að leysa málið í samráði við Ekportfinans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefndinni vegna frétta um að Eksportfinans í Noregi hafi kært gamla Glitni banka.

„Við vinnum að lausn þessa máls með okkar lögfræðingum á Íslandi og í Noregi,“ segir í tilkynningunni.

„Það sem meðal annars er verið að skoða er hvort hægt sé að koma að fullu til móts við kröfur Ekportfinans án þess fara á svig við íslensk lög eða raska jafnræði kröfuhafa.“

Þá segist skilanefndin vonast til þess að niðurstaða náist í þessu máli sem allra fyrst.

„Þar sem málið er í lögfræðilegum farvegi getur skilanefndin ekki tjáð sig frekar um málið fyrr en niðurstaða liggur fyrir,“ segir í tilkynningunni en undir hana skrifar Árni Tómasson, formaður nefndarinnar.

Forsaga málsins

Í gær kærði Ekportfinans Glitni fyrir fjárdrátt en félagið sakar Glitni um að hafa haldið aftur fé frá lánveitanda.

Glitnir hafði verið milliliður milli Ekportfinans og lánveitanda. Eftir að Glitnir var þjóðnýttur af íslenskum stjórnvöldum í lok september leitaði Ekportfinans beint til lánveitandans eftir greiðslum á láninu.

Ekportfinans fullyrðir að lánveitandinn hafi þegar greitt Glitni lánið en Glitnir hafi haldið eftir fjármagni án þess að gera grein fyrir því.

Þetta kom fram í Aftenposten í morgun.