Í síðustu viku var aflétt kyrrsetningu á eignum Glitnis í Noregi sem staðið hefur frá falli bankans í byrjun október í fyrra. Með þessari niðurstöðu fær skilanefnd bankans óskorað forræði yfir eignum hans í Noregi, sem eru að andvirði um eitt hundrað milljarðar íslenskra króna að því er kemur fram í tilkynningu bankans.

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir í tilkynningu að þessi niðurstaða sé mikilvæg því með henni sé ljóst að hægt verður að standa við allar skuldbindingar bankans í Noregi og hámarka þannig virði eigna. Jafnframt tryggi hún að jafnræðis sé gætt á milli kröfuhafa en þeir sem kröfðust kyrrsetningarinnar í Noregi þurfa nú eins og aðrir að beina kröfum sínum í þrotabúið á Íslandi og hugsanlegur ágreiningur verður leystur fyrir íslenskum dómstólum.

Upphaflega voru það þrír aðilar sem kröfðust kyrrsetningar á eignum Glitnis í Noregi og urðu norskir dómstólar við þeirri kröfu. Skilanefnd Glitnis óskaði eftir því að krafan yrði tekin til efnislegrar meðferðar og fóru málaferli fram fyrir undirrétti í Þrándheimi í janúar síðast liðnum. Rétturinn hafnaði kyrrsetningarkröfunni og var þeirri niðurstöðu áfrýjað af þýska bankanum KFW. Aðrir kröfuhafar féllu frá kröfum sínum um kyrrsetningu og í þann mund sem málaferli áttu að hefjast fyrir áfrýjunarrétti í síðustu viku, féll KFW bankinn einnig frá kyrrsetningarkröfu sinni. Í framhaldinu hefur allri kyrrsetningu á eignum Glitnis í Noregi nú verið aflétt segir í tilkynningu.