Moderna Finance í Svíþjóð, sem var í eigu Milestone en er nú undir stjórn skilanefndar Glitnis, hefur selt bankann Banque Invik í Lúxemborg ásamt dótturfélögum til Scribona Nordic.

Salan er háð skilyrðum um samþykki fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg. Gert er ráð fyrir að viðskiptin gangi að fullu í gegn á öðrum fjórðungi ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Moderna.

Banque Invik er með einkabankaþjónustu, eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf, auk þess að gefa út greiðslukort. Hagnaður bankans á árinu 2007 nam 8,9 milljónum evra og stærstu tekjuþættirnir voru vaxtatekjur og þóknanatekjur. Stærð efnahags bankans var 724 milljónir evra í lok árs 2007

Scribona er sænskt félag sem hefur gengið í gegnum miklar breytingar frá því það var stofnað árið 1992 þegar Esselte samstæðunni var skipt í tvennt. Fyrirtækið sem einbeitti sér að skrifstofuvörum hélt Esselte nafninu en hitt varð Scribona, sem einbeitti sér að rafvörum, skrifstofuvörum og upplýsingatækniþjónustu á Norðurlöndunum. Í fyrra seldi Scribona þennan rekstur sinn til Tech Data. Scribona hefur verið skráð í kauphöllunum í Stokkhólmi og Osló en hefur sótt um afskráningu og skráningu á First North.