Skilanefnd Glitnis og Seðlabanki Lúxemborgar hafa undirritað samning um hvernig staðið skuli að uppgjöri skulda vegna dótturfélags Glitnis í Lúxemborg.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skilanefnd Glitnis en Seðlabankinn í Lúxemborg er hluti af neti Seðlabanka Evrópu.

Í tilkynningunni kemur fram að samningaviðræður hafa staðið yfir frá því að starfsemi dótturfélags Glitnis í Lúxemborg stöðvaðist í byrjun október og félagið fór í greiðslustöðvun. Með þessum samningi hafi tekist að afstýra því að dótturfélag Glitnis í Lúxemborg, verði tekið til gjaldþrotaskipta en þess í stað fer félagið í skipulagða slitameðferð (voluntary liquidation) undir forræði skilanefndar.

„Með samningnum hefur tekist að verja mikilvæga hagsmuni Glitnis og viðskiptavina hans og fær bankinn allt að fimm ára svigrúm til að hámarka virði eigna sinna í Lúxemborg og til uppgreiðslu skulda hjá Seðlabankanum,“ segir í tilkynningunni.

„Þá er tryggt með samningnum að lánasöfn, sem lögð voru fram sem tryggingar fyrir fjármögnun hjá Seðlabanka Lúxemborgar og innihalda meðal annars lánasamninga íslenskra viðskiptavina Glitnis, verði áfram í umsýslu skilanefndar Glitnis.“

Þá kemur fram að umsamið er að andvirði fasteignalánasafns í eigu dótturfélagsins í Lúxemborg verði nýtt til greiðslu skuldarinnar hjá Seðlabankanum en lánasafnið er með veðum í atvinnu- og íbúðahúsnæði á Norðurlöndum, í Bretlandi og í Þýskalandi.

Meginþorri starfseminnar í Lúxemborg hefur verið lánastarfsemi til fasteignafélaga í Evrópu en aðeins lítill hluti starfseminnar hefur verið þjónusta við íslensk fyrirtæki og einstaklinga.

„Áætlun um uppgjör við kröfuhafa hefur verið send öllum kröfuhöfum og mun atkvæðagreiðsla um áætlunina fara fram 16. mars næst komandi. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að aðrir kröfuhafar en Seðlabankinn fá fullnustu sinna krafna strax og því er þessi samningur grunn forsenda þess að hægt sé að ljúka málum dótturfélags Glitnis í Lúxemborg með farsælum hætti,“ segir í tilkynningunni.

„Áætlunin gerir jafnframt ráð fyrir að allar innistæður viðskiptavina verði greiddar út á næstunni. Á sama tíma er eytt ákveðinni óvissu gagnvart starfsmönnum bankans því umsamin starfskjör og réttindi starfsmanna í Lúxemborg verða tryggð á uppsagnartíma en svo hefði ekki verið ef til gjaldþrots hefði komið.“