Skilanefnd Glitnis tók þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group og keypti um 3,3% af nýju hlutafé í félaginu, eða fyrir um 90 milljónir króna. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag og staðfestir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, að keypt hafi verið í félaginu.

Glitnir eignaðist forkaupsrétt í félaginu eftir fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair.

„Okkur bárust engin viðunandi tilboð í þennan forkaupsrétt. Því mátum við stöðuna þannig að við værum að verja eignir kröfuhafa Glitnis með því að taka þátt í hlutafjárútboðinu, án þess þó að fara út í nýjar fjárfestingar,“ segir Árni í Morgunblaðinu í dag.