Nýja Kaupþing, ríkið og skilanefnd Kaupþings undirrituðu í dag samninga sem fela meðal annars í sér ákvæði um endurfjármögnun bankans og uppgjör milli gamla og nýja bankans.

Í samningunum kemur fram að skilanefnd, fyrir hönd kröfuhafa, gefst kostur á að eignast um 87% hlutafjár í Nýja Kaupþingi á móti ríkissjóði. Skilanefndin hefur frest til 31. október til að taka ákvörðun.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Kaupþing. Í henni kemur fram að samningarnir eru háðir fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar á Nýja Kaupþingi og samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

Undirritun samningana í dag byggir á rammasamkomulagi ríkisins og skilanefndar Kaupþings sem kynnt var þann 20. júlí síðastliðinn. Nýja Kaupþing mun hér eftir sem hingað til heyra að öllu leyti undir íslensk lög og íslenskar eftirlitsstofnanir. Innstæðutrygging íslenskra stjórnvalda nær jafnt til Nýja Kaupþings sem og annarra innlendra innlánastofnanna.

Breytingar á stjórn

Þá kemur fram að breytingar eiga sér stað í stjórn bankans í kjölfar undirskriftarinnar. Skilanefnd Kaupþings hefur tilnefnt tvo stjórnarmenn sem munu frá deginum í dag hafa sama atkvæðisrétt í stjórn Nýja Kaupþings og fjórir stjórnarmenn tilnefndir af ríkinu. Ný stjórn mun leiða starf bankans þar til endanlegt eignarhald liggur fyrir.

Í nýrri stjórn bankans sitja: Erna Bjarnadóttir nýr stjórnarformaður, Helga Jónsdóttir, Drífa Sigfússdóttir, Jónína Sanders, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Theodór S. Sigurbergsson.

Úr stjórn hverfa Hulda Dóra Styrmisdóttir stjórnarformaður og Auður Finnbogadóttir.