Afkoma Aurum, stærsta skartgripasala Bretlands, á síðasta reikningsári var slök en EBITDA félagsins fór úr 13 í 8 milljónir punda. Veltan jókst um 2% og nam 226 milljónum punda eða um 46 milljörðum króna. Undir Aurum falla Mappin & Webb, Watches of Switzerland og Goldsmiths.

Skilanefnd Landsbankans tók yfir 37,8% hlut sem var í eigu BG Holding og hefur stýrt félaginu síðan í samstarfi við Don McCarthy, stjórnarformann félagsins og viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Slök afkoma í fyrra var fyrst og fremst því að kenna að jólasala brást algerlega.

Félagið hefur nú verið endurfjármagnað, meðal annars með tilstyrk skilanefndar. Skuldum upp á 42 milljónir punda er breytt í hlutafé en auk þess tók skilanefndin þátt í 10 milljóna punda millilagsláni (e. mezzanine loan)  til félagsins. Breska fjármálaeftirlitið (FSA) þarf að samþykkja gjörninginn.

Skilanefndin á 1. verðrétt í öllum eignum Aurum og kemur því að samningum um endurskipulagningu á félaginu. Talið var að félagið væri í góðum rekstri en of skuldsett. Því varð það að niðurstöðu að fella niður skuldir en í staðin kemur inn nýtt fé sem meðal annars á að koma því í gegnum jólavertíðina.

Afkoman fyrstu 26 vikur þessa rekstrarárs, sem lauk 2. ágúst, var betri en stjórnendur félagsins höfðu gert ráð fyrir að því er kemur fram í tilkynningu vegna endurfjármögnunar félagsins. Velta félagsins hefur þó dregist saman, meðal annars vegna þess að endir var bundin á samning við Harrods vöruhúsið. Veltan drógst þannig saman úr 135,3 milljónum punda á síðasta ári í 122,7 milljónir punda á sama tímabili. Netsala og sala á lúxusvörum hefur aukist talsvert á tímabilinu.

Don McCarthy á talsverðan hluta í félaginu og mun vera stjórnarformaður áfram en gert er ráð fyrir að ný stjórn komi að félaginu um áramót. Gunnars Sigurðsson situr í stjórn félagsins núna. Don McCarthy kemur sjálfur inn með nýtt fé en þær 10 milljónir sem koma inn skiptast á milli hans og Skilanefndar.