Skilanefnd Landsbankans er nú stödd í Lundúnum þar sem hún fundar með fjármálaráðgjöfum sem vilja annast söluferlið á Iceland matvörukeðju. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV . Skilanefndin heldur um 67% hlut í matvörukeðjunni en skilanefnd Glitnis er einnig í hópi hluthafa. Erlendir miðlar hafa fjallað um söluna á síðustu dögum. Financial Times greindi frá því að fjölmargir keppinautar félagsins séu áhugasamir um að kaupa Iceland. Meðal þeirra fyrirtækja sem eru nefnd til sögunnar eru Wm Morrison, Sainsbury's, Asda, Tesco og breska samvinnuhreyfingin sem m.a. á Somerfield. Hlutur Landsbankans í Iceland er metinn á 1,7-2 milljarða punda, eða allt að 370 milljarðar króna.

Í frétt RÚV er haft eftir Lárentsínusi Kristjánssyni, formanni skilanefndar Landsbankans, að margir séu áhugasamir um að eignast Iceland. Nefndin sé nú að grisja úr hópi fjármálaráðgjafa og muni svo fela einum eða tveimur þeirra verkið á næstu dögum. Þegar réttir ráðgjafar hafa fundist getur formlegt söluferli á verslunarkeðjunni Iceland hafist en það mun taka um 20 vikur hið minnsta, að því er fram kemur í frétt RÚV.