Söluferlið á bresku matvörukeðjunni er á áætlun og er stefnt að því að selja hlut skilanefndar gamla Landsbankans í henni fyrir áramót. Skilanefndin áformar ekki að selja hlut sinn í bresku stórversluninni House of Fraser og leikjabúðinni Hamleys þrátt fyrir að fjárfestar hafi lýst yfir áhuga á þeim.

Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, útilokaði ekki að salan á Iceland Foods gæti dregist fram í janúar.

Fram kom á blaðamannafundi eftir kröfuhafafund skilanefndar og slitastjórnar Landsbankans fyrir stundu að ein ástæðna þess að eignahlutir skilanefndarinnar í verslununum verði ekki seldir í bili sé sú að stjórnendur einbeiti sér að jólaversluninni um þessar mundir.

Skilanefnd Landsbankans á 63% hlut í Hamleys og 35% í House of Fraser.