Með vísan til fjölmiðlaumræðu undanfarið vill Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. taka fram að hún hefur veitt skattrannsóknarstjóra allar þær upplýsingar sem henni eru tiltækar og óskað hefur verið eftir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefnd Landsbanka Íslands.

Í tilkynningunni telur Skilanefnd rétt að taka fram að í svari til skattrannsóknarstjóra hafi komið fram að Landsbankinn átti í engum viðskiptum við það félag sem var tilefni fyrirspurnar skattrannsóknarstjóra og tengist bankinn félaginu á engan hátt.

„Skilanefnd hefur ekki undir höndum upplýsingar sem varða viðskipti einstakra viðskiptavina við dótturfélag Landsbankans í Lúxemborg,“ segir í tilkynningunni.

„Fyrirspurnum vegna þess félags verður því að beina til stjórnenda dótturfélagsins aðstoðarmanni þess, eða til fjármálaeftirlitsins í Lúxemborg.“

Þá er sérstaklega tekið fram í tilkynningunni að skilanefnd Landsbankans standi ekki í vegi fyrir slíkri gagnaöflun af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

„Það skal að lokum tekið fram að Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. hefur svarað skilmerkilega og innan allra fresta öllum þeim erindum sem skattayfirvöld hafa sent bankanum. Engum erindum er ósvarað af hálfu bankans,“ segir í tilkynningunni.