Skilanefnd Landsbanka Íslands hefur engin áform um að krefjast sölu eigna BG Holding ehf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefndinni vegna aðgerða bankans gagnvart BG Holding ehf. fyrir enskum dómstólum.

Í tilkynningunni kemur fram að það er hagur Gamla Landsbankans og allra kröfuhafa að til langs tíma litið fáist sem mest fyrir eignir bankans.

Tilkynning skilanefndarinnar er svohljóðandi:

Gamli Landsbankinn (Landsbanki Íslands hf.) hefur átt margra ára farsælt samstarf við stjórnendur Baugs og félög í þeirra eigu. Mörg þessara félaga hafa fjárfest í rekstrarfélögum sem eiga fyrirtæki í góðum rekstri og munu án vafa eiga langa og góða framtíð.

BG Holding ehf. á hluti í matvöruverslunum Iceland Foods, leikfangaverslunum Hamleys, verslunarmiðstöðvunum House of Fraser, ásamt skartgripa] og úraverslununum Goldsmiths, Mappin & Webb og Watches of Switzerland. Þessar verslunarkeðjur eru þekkt vörumerki um allan heim

Í gær, 3. febrúar, lagði Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. fram beiðni fyrir dómstóli í Englandi um skipun tilsjónarmanns (e. Administrator) yfir BG Holding ehf. Þetta er gert til að vernda hagsmuni Gamla Landsbanka (Landsbanka Íslands hf.) sem er stór kröfuhafi í félaginu. Á næstu dögum verður skorið úr því í Englandi hvort þessi beiðni verður samþykkt.

Undanfari þessara aðgerða er að um miðjan desember barst Skilanefnd Gamla Landsbankans (Landsbanka Íslands hf.) tillaga frá Baugi um lausn á fjárhagsvanda BG Holding ehf.

Umsvif fyrirtækisins eru viðamikil og skilanefndin leitaði því til alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa sérfræðinga á sínum snærum til að fara ofan í saumana á þeim tillögum sem lágu fyrir og hvernig hagsmunir bankans væru best tryggðir.

Þau fyrirtæki sem voru ráðin til starfans var PricewaterhouseCoopers LLP í London ásamt lögfræðistofunum SJ Berwin LLP í London. Það var álit ráðgjafanna að hagsmunir kröfuhafa Gamla Landsbanka (Landsbanka Íslands hf.) væru best tryggðir með því að hafna þeirri leið sem Baugur lagði til og leggja fram beiðni um greiðslustöðvun BG Holding ehf. í Englandi.

Gamli Landsbankinn (Landsbanki Íslands hf.) er stærsti kröfuhafi BG Holding ehf. og bankinn telur hagsmunum sínum best borgið með því að hlutafjáreignir BG Holding ehf. verði ekki seldar og að friður skapist um um rekstur þeirra fyrirtækja sem eru í eigu félagsins.

Það hefur komið fram frá stjórnendum fyrirtækjanna að skipun tilsjónarmanns yfir BG Holding ehf. hafi ekki áhrif á afkomu þeirra og að daglegur rekstur verði óbreyttur. Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. styður þetta álit og vonast til að fyrirtækin verði fyrir lágmarks raski svo að stjórnendur geti einbeitt sér að daglegum rekstri.

Stjórnendur Baugs og Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. eru sammála um að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja stöðugleika þeirra rekstrarfélaga sem um ræðir.