Stafir lífeyrissjóður á í deilum við skilanefndir Landsbankans og Kaupþings vegna peninga sem týndust í kerfinu, að því er virðist. Málið varðar skiptasamning sem var til greiðslu 6. október 2008.

Atvik málsins eru þau að Stafir seldu dollara af reikningi sínum í Landsbankanum og áttu þeir, um 5,6 milljónir dala, að færast til Kaupþings. Þangað skiluðu þeir sér hins vegar ekki, en upphaf viðskiptanna var rétt fyrir fall Landsbankans. „Við förum að öllum líkindum með málið fyrir dóm en ekki liggur ljóst fyrir gegn hverjum þar sem báðar skilanefndirnar vísa málinu frá sér,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdarstjóri Stafa. Ólafur segir að gerðar hafi verið kröfur í báða bankana.

„Þetta má sýnir hversu hátt flækjustigið er í kerfinu um þessar mundir og okkur er sagt af skilanefndunum að þetta sé ekki einsdæmi,“ segir Ólafur.