Kostnaður við vinnu skilanefnda og slitastjórna er lítill í samanburði við svipaða vinnu erlendis. Erfitt er þó að bera saman kostnað milli landa þar sem launaskuldbindingar hér á landi eru í krónum en erlendis í erlendum myntum.

Laun fyrir sömu vinnu eru því oftar en ekki allt að tvöfalt meiri í krónum talið erlendis en hér á landi.

Kostnaður sem hlutfall af eignum er frekar lítill í alþjóðlegum samanburði, ekki síst af þeim ástæðum sem að framan greinir. Að meðaltali hefur rekstrarkostnaður numið um tuttugu milljörðum á ársgrundvelli eða sem nemur um 0,57% af heildarvirði eigna. Miðað við kostnað við banka í slitameðferð víða erlendis, m.a. í Danmörku og Bretlandi, telst þetta fremur lítill kostnaður þar sem algengt er að hann sé tvö til fimm prósent af heildarvirði eigna.

Mestur hefur kostnaður verið hjá Landsbankanum sem skýrist öðru fremur af mikilli sérfræðivinnu sem keypt hefur verið erlendis frá. Kostnaður Kaupþings og Glitnis á árinu 2009 var svipaður eða um fjórir milljarðar. Kostnaður Landsbankans var hins vegar um tólf milljarðar. Kostnaður sem hlutfall af eignum er minnstur hjá Kaupþingi eða 0,26%.

Mikil sérfræðivinna

Lögfræðistofur og ýmsir sérfræðingar á sviði endurskoðunar hér landi hafi einnig fengið töluverða fjármuni til sín vegna sérfræðivinnu. Glitnir og Landsbankinn gefa báðir upp í skýrslum sínum kostnað við þá sem sitja í skilanefnd og slitastjórn.

Hjá Glitni nam hann 103 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Það er að meðaltali um 5 til 7 milljóna króna kostnaður á mánuði á hvern meðlim skilanefndar og slitastjórnar. Stærsti hlutinn af kostnaðinum hjá Glitni á þessu ári hefur þó farið í ráðgjöf eða 633 milljónir af ríflega milljarðs króna heildarkostnaði fyrir fyrsta ársfjórðung þess árs. Laun til allra starfsmanna skilanefnda og slitastjórna námu á sama tíma 125 milljónum króna.

Hjá Landsbankanum var kostnaðurinn vegna þeirra sem sitja í skilanefnd og slitastjórn 189 milljónir króna á fyrstu 6 mánuðum þess árs. Það gerir ríflega 6 milljóna kostnað á mann á mánuði. Heildarsérfræðikostnaður bankans á fyrri helmingi ársins nam tæplega þremur milljörðum, þar af var kostnaður vegna sérfræðinga hér á landi um 470 milljónir.

Hjá Kaupþingi hafa til þessa ekki verið gefnar upp sambærilegar tölur, þ.e. kostnað við meðlimi í slitastjórn og skilanefnd. Sérfræðikostnaður bankans á síðasta ári nam um 3,2 milljörðum króna, þar af nam kostnaður vegna keyptrar sérfræðivinnu hér á landi 894 milljónum króna.

Greitt til félaga

Kostnaðurinn við þau sem sitja í skilanefndum og slitastjórnum er að stærstum hluta greiddur til félaga, í mörgum tilvikum lögfræðistofa, sem þau starfa fyrir eða eiga. Engar upplýsingar er að finna í kröfuhafaskýrslunum um til hvaða félaga kostnaðurinn hefur farið. Lögfræðistofur njóta þó góðs af þessari vinnu í mörgum tilvikum.

Þannig eiga Steinunn Guðbjartsdóttir hrl., formaður slitastjórnar Glitnis, og Feldís Óskarsdóttir hdl., sem situr í slitastjórn Kaupþings, saman lögfræðistofuna Megin. Steinar Þór Guðgeirsson hrl., formaður skilanefndar Kaupþings, Ólafur Garðarsson hrl., formaður slitastjórnar Kaupþings, og Lárentínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, allir í hópi eigenda Lögfræðistofu Reykjavíkur, svo dæmi séu tekin.

Kristinn Bjarnason, aðstoðarmaður Landsbankans í greiðslustöðvun, rekur svo sína eigin lögfræðistofu, Lögfræðistofu Kristins Bjarnasonar.