Sund, sem nú heitir Ice- Capital, skuldaði íslensku bönkunum um 64 milljarða króna við bankahrun. Helstu eignir félagsins voru hlutabréf í bönkunum sjálfum. Því hefur verið stefnt vegna vanefnda á lánasamningum og er grunað um að vera þátttakandi í markaðsmisnotkun föllnu bankanna.

Sund/IceCapital er grunað um að vera þátttakandi í markaðsmisnotkunartilburðum föllnu bankanna þriggja. Tvær skilanefndir hafa árangurslaust reynt að kyrrsetja eignir félagsins vegna vanefnda á lánasamningum og Arion banki hefur stefnt félaginu fyrir dómstólum

Sund/IceCapital og tengd félög skulduðu Landsbankanum (36,1 milljarð króna), Glitni (19,9 milljarða króna) og Kaupþingi (7,7 milljarða króna) samtals tæpa 64 milljarða króna við bankahrun samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Helstu eignir félagsins á þeim tíma var 12% hlutur í VBS Fjárfestingarbanka, um 2% hlutur í Glitni, 1% hlutur í Landsbankanum og 0,6% hlutur í Kaupþingi. Allar þessar eignir eru í dag verðlausar enda öll fyrirtækin fjögur fallin. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að „á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. september 2008 hækkuðu skuldir Sunds og tengdra félaga um 44,7 milljarða króna“.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins telja lánardrottnar Sund/IceCapital samstæðunnar engar líkur á að hún eða forsvarsmenn hennar geti staðið við þær skuldbindingar sem samstæðan undirgekkst. Því er lögmaður Sunds/IceCapital ósammála.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .