Mikið hefur borið á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í fjölmiðlum vegna bókarinnar Málsvörn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar kom út í lok janúar en hann var í viðtali hjá DV sem kom út í morgun.

Meðal þess sem Jón Ásgeir viðurkenndi í bókinni er að hafa verið of ragur við að selja eignir. Meiri áhersla hafi verið að kaupa eignir en hann var um tíma með 84 fyrirtæki í eignasafni sínu. Í bókinni talaði hann um þau mistök að hafa fjárfest í geirum sem hann hafði litla sérfræðiþekkingu á og nefndi Glitni í þeim efnum.

Spurður hvort það hafi átt við fleiri svið, líkt og Formúlu 1 liðið, svarar Jón Ásgeir: „Ég var náttúrulega ekkert kominn af stað í kaupin á Formúlu 1 liðinu, en ég hugsa að ég hefði skilið það betur en bankastarfsemi.“

Sjá einnig: Sósíalistaforingi á einkaþotu

Jón Ásgeir, í gegnum félagið Sports Investment, samdi um kaup á 40% hlut í Williams formúluliðinu í lok árs 2007, að því er RÚV greindi frá á sínum tíma. Glitnir veitti bankaábyrgð á greiðslunni. Þegar Jón Ásgeir gat ekki staðið við samninginn í desember 2008, reyndi á ábyrgð Glitnis. Williams-liðið taldi sig þá eiga rúmlega tveggja milljarða króna kröfu í þrotabú Glitnis á grundvelli bankaábyrgðarinnar. Slitastjórn Glitnis féll ekki á það og málið fór fyrir Héraðsdóm árið 2012. Williams vann málið árið 2015 og Hæstiréttur staðfesti dóminn nokkrum mánuðum síðar.

Hvar var umboðssvikalöggan í Hagamálinu?

Spurður hvort það fylgi orðsporsáhætta að hafa hann með í rekstri fyrirtæki, segir Jón Ásgeir að hann hafi vissulega heyrt aðra segja það en telji þó að svo sé ekki.

„Þetta var vinsælt orð hérna rétt eftir hrun. Ef menn höfðu engin önnur svör við því sem við vorum að segja, þá gripu menn í þetta orð. Þetta var notað miskunnarlaust til dæmis í Hagamálinu.“

Fjölskylda Jóns Ásgeirs missti Haga úr sínum höndum árið 2009 þegar forveri Arion banka yfirtók eignarhaldsfélag þeirra sem hét 1998, en það átti 95,7% hlut í Högum. Arion setti Haga svo á markað árið 2011. Jón Ásgeir hélt því fram á sínum tíma að bankinn hafi selt hlutabréf í Högum fyrir um 40% lægra verði en fjölskylda Jón Ásgeirs og erlendir aðilar höfðu boðið í félagið.

„Við buðum mikla hærra verð í hlutinn en bankarnir sögðu samt nei. Bankarnir töpuðu rosalegu fé á því og maður hlýtur að spyrja sig, hvar var umboðssvikalöggan þá?“ er haft eftir Jóni Ásgeiri í viðtali DV.