Geir H. Haarde fjármálaráðherra segir í viðtali við Viðskiptablaðið sem kemur út í dag að einkavæðing bankanna sé ein meginforsendan fyrir vaxtalækkunum undanfarna daga. Einnig kemur fram að hann telur ekki eftir neinu að bíða með að selja Landssímann en hann játar að það sé áherslumunur milli stjórnarflokkanna um virðisaukaskatt en skattapakki ríkisstjórnarinnar verður kynntur innan tíðar.

Vinna vegna frumvarps til fjárlaga næsta árs stendur nú sem hæst. Í langtímaáætlun sem fylgdi síðasta frumvarpi var stefnt að ríflega 15 milljarða tekjuafgangi árið 2005. Margir bíða þó spenntari eftir að sjá hvernig og á hve löngum tíma þeir 20 milljarðar, sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja til skattalækkana á kjörtímabilinu, skila sér til skattgreiðenda. Fréttir hafa birst um að tekjuskattur verði lækkaður um 1 prósentustig fyrsta kastið, þ.e. um næstu áramót.

Um allt þetta er fjallað í ítarlegu viðtali við Geir H. Haarde fjármálaráðherra í Viðskiptablaðinu í dag.