*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Erlent 10. febrúar 2016 11:52

Skilgreina gervigreind sem bílstjóra

Umferðareftirlitsstofnun bandaríska ríkisins hefur nú gefið Google mikilvægt grænt ljós í þróun sjálfakandi snjallbifreiðar.

Karl Ó. Hallbjörnsson
Aðsend mynd

Bandaríska umferðareftirlitsstofnunin hefur nú tilkynnt Google að gervigreindarbúnaður sjálfkeyrandi bifreiða fyrirtækisins skuli nú metinn sem fullgildur og sjálfstæður bílstjóri.

Eftirlitsstofnunin metur þá sjálfkeyrandi snjallbifreið og þann gervigreindarhugbúnað sem ekur honum sem bílstjóraeininguna sjálfa, fremur en að skilgreina fólkið sem situr í sjálfsakandi bílnum, sem bílstjóra bifreiðarinnar - þann sem tekur umferðarlegar ákvarðanir.

Þetta mat eftirlitsstofnunarinnar gæti verið mikilvægt skref í átt að innleiðingu gervigreindarbifreiða, þar eð skilgreiningin felur í sér að gervigreindin sé metin hæf til aksturs - ef svo má að orði komast.

Ef tölva bílsins er lagalega séð skilgreind sem bílstjórinn er auðveldara fyrir Google hvað varðar reglugerðarfargan að halda áfram að þróa aukinn tækjabúnað sem svo matar tölvuna með frekari upplýsingum.

Stofnunin gerði Google grein fyrir þeim lagalegu og skrifræðislegu hindrunum sem gætu staðið í vegi fyrir því að koma snjallbifreiðum í almenna umferð. Til að mynda krefjast reglugerðir þess að allar bifreiðar í almennri umferð séu með verkandi fótbremsu.