Einn af þeim þáttum sem ollu Icelandair vandræðum á síðasta ári var að ákveðið ójafnvægi skapaðist í leiðakerfi félagsins en ráðist hefur verið í breytingar til að vinna bót á þeim málum. „Í stuttu máli var framboðið til Norður-Ameríku aukið of mikið á kostnað Evrópu og þannig myndaðist ákveðið ójafnvægi.“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. „Við höfum verið að vinna í því á þessu ári að laga þetta. Þá höfum við sett meiri fókus á markaðinn til og frá Íslandi og aðeins minni fókus á markaðinn yfir hafið á þessu ári.“

Önnur breyting sem Icelandair hefur gert í rekstri sínum er innleiðing á nýju tekjustýringarkerfi sem Bogi segir að eiga að skila félaginu 2-4% hærri tekjum að öðru óbreyttu þegar reynsla verður komin á það. „Tekjustýring hjá flugfélögum er flókin. Þó við séum lítið félag þá erum við að reka tiltölulega flókið leiðakerfi sem snýst um að tengja saman áfangastaði, alla vega að stórum hluta, í Bandaríkjunum við staði í Evrópu með stoppi á Íslandi. Nýja kerfið gerir okkur kleift að tekjustýra öllum þeim 500-600 tengimöguleikum sem eru innan okkar leiðakerfis og þar með að hámarka tekjur af því leiðakerfi sem við erum að reka.“

Bogi segir þetta þó ekki bara snúast um kerfið heldur einnig uppbyggingu öflugs teymis sem starfar við tekjustýringu. „Við höfum verið að efla starfsemi tekjustýringar, bæði með kerfinu, mannskapnum, þekkingu, reynslu og svo framvegis, því tekjustýring er mjög mikilvægur þáttur í rekstri flugfélaga. Við réðum reynslumikinn erlendan aðila sem forstöðumann tekjustýringar en hann hefur starfað í tekjustýringu hjá mörgum flugfélögum og sem ráðgjafi víða í heiminum. Við búumst við því að í lok þessa árs og í byrjun árs 2020 muni þessar áherslubreytingar í tekjustýringu að öðru óbreyttu skila félaginu 2-4% hærri tekjum.

Betri nýting og bætt stundvísi

Þrátt fyrir mikinn vöxt í tekjum Icelandair hefur kostnaður félagsins vaxið hraðar á síðustu misserum. Að sögn Boga er bætt stundvísi í Keflavík og nýting starfsfólks helstu þættirnir á kostnaðarhliðinni sem unnið er að því að bæta. „Varðandi þessar kostnaðaraðgerðir sem við erum í þá er forgangsverkefni að bæta stundvísi í Keflavík. Við sögðum á síðasta ári að kostnaður vegna truflana í leiðarkerfi hafi verið um 45 milljónir dollara og við ætluðum að lækka hann um allavega 40% á þessu ári sem þýðir tæplega 20 milljónir dollara. Við vorum á mjög góðri leið með að ná þessu markmiði og mælikvarðarnir í desember, janúar og febrúar sýndu að við vorum á réttri braut við að ná markmiðinu áður en Max-málið kom upp. Við þurfum einnig að gera betur á mörgum sviðum varðandi launakostnað. Samningarnir sem við erum með við áhafnir eru tiltölulega gamlir og það eru ýmis ákvæði í þeim sem hafa áhrif á nýtingu okkar starfsfólks. Leiðakerfi okkar er að þróast og við þurfum í samstarfi við starfsfólk og stéttarfélög að aðlaga samningana betur að nútímanum, núverandi leiðakerfi og menningunni almennt sem hefur breyst líka. Það jákvæða í stöðunni er að það er fullt af tækifærum til þess að finna lausnir sem koma bæði félaginu og starfsfólkinu vel.“

Gera núverandi kjarasamningar við áhafnir félaginu erfitt fyrir að breyta og bæta nýtingu þeirra?

„Það er eins með þessa samninga og alla launasamninga að þeir eru bundnir ákveðnum takmörkunum eins og samningar á almennum markaði en það eru mörg atriði í okkar samningum sem takmarka nýtinguna. Vinnan okkar núna snýst um að finna slík atriði og skipta ávinningnum á milli starfsfólks og félagsins þannig að félagið verði samkeppnishæft til framtíðar. Við þurfum að lækka einingarkostnað á þessu sviði til þess að vera samkeppnishæf. Ég tel að það geri sér allir grein fyrir því að við erum í samkeppni við um 25 félög sem fljúga hingað til lands og mörg þeirra gera út frá löndum með mun lægri kostnað. Við erum í góðu samstarfi við okkar starfsfólk að finna leiðir sem lækka þennan einingarkostnað en geta áfram borgað góð laun, en þetta snýst að mestu leyti um að auka nýtinguna.“

Nánar er rætt við Boga í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .