Með kaupum á verðbréfafyrirtækinu Rose Invest er Landsbankinn, sem er í 80% eigu ríkisins, að einfalda yfirfærslu sjóða Landsvaka yfir í nýtt félag. Þeir sjóðir sem eftir verða í Landsvaka eru í slitum á meðan sjóðirnir sem eru í lagi verða færðir í nýtt félag.

Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins en eins og blaðið greindi frá í síðustu viku keypti Landsbankinn nýlega 51% hlut í Rose Invest sem er í eigu Sigurðar B. Stefánssonar og Svandísar Rúnar Ríkarðsdóttur. Sigurður er jafnframt stjórnarmaður í Bankasýslu ríkisins.

Margar kröfur á Landsvaka

Sjóðir Landsvaka munu færast yfir til Rose Invest eftir að óháðir aðilar hafa metið sannvirði sjóðanna. Þeir verða síðan keyptir yfir og andvirðið skilið eftir inni í Landsvaka ásamt þeim sjóðum sem eru í slitum. Við þetta á að skapa skil milli fortíðar og framtíðar í sjóðarekstri Landsbankans.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er tilgangur þessa einnig sá að losa rekstrarfélag starfandi sjóða Landsbankans undan ábyrgð á því sem gerðist innan Landsvaka fyrir hrun, en nokkrum sjóðum félagsins var slitið og hlutdeildarskírteinishöfum greitt út í samræmi við það sem fékkst fyrir eignir sjóðanna.

Nú þegar hafa mörg dómsmál verið höfðuð gegn Landsvaka vegna þessa auk þess sem sérstakur saksóknari rannsakar nú kaup á 400 milljóna króna skuldabréfi sem fjárfestingarsjóður Fyrirtækjabréfa Landsbankans keypti af Björgólfi Guðmundssyni árið 2005. Kaupin voru ekki samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins þar sem hann átti einungis að fjárfesta í skuldabréfum traustra fyrirtækja og fjármálastofnana, ekki einstaklinga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.