*

mánudagur, 15. júlí 2019
Innlent 12. júní 2015 16:42

Skilja ekki ummæli Árna Páls

Benedikt Gíslason og Sigurður Hannesson segja að ummæli formanns Samfylkingar um meinta spillingu verði að teljast hæpin.

Jóhannes Stefánsson
Haraldur Guðjónsson

Úr ítarlegu viðtali Viðskiptablaðsins við Benedikt Gíslason og Sigurð Hannesson:


Árni Páll Árnason talaði um það á mánudag að kynningin á afnámsáætluninni gæfi tilefni til þess að gæta að því hvort vildarvinir stjórnarflokkanna væru komnir í startholurnar. Er það rétt hjá honum?

„Ég held það sé mjög hæpið að halda því fram. Eiginlega bara útilokað með öllu með hliðsjón af eðli tillagnanna. Það stendur til að afnema höftin því þau eru skaðleg og frávik frá eðlilegu ástandi. En ég náði því nú ekki nákvæmlega hvað hann var að fara með þessu,“ segir Sigurður Hannesson, varaformaður framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta.

Benedikt Gíslason, sem einnig er varaformaður í hópnum, bætir við: „Maður sá að þeir sem voru kannski helst að gagnrýna þessa vinnu bentu á að hún snérist um að ríkið myndi eignast bankana og myndu síðan selja einhverjum vildarvinum. En ef við skoðum þessar tillögur sem kröfuhafarnir hafa lagt fram, að þá liggur það fyrir að slitabúin munu áfram eiga bankann og munu selja þau sjálf. Okkur í framkvæmdahópnum þótti það ekki leysa vandann að velta áhættu af öllu fjármálakerfinu yfir á stjórnvöld.“

„Stjórnvöld ætla ekki að skipta sér að því, fyrir utan bara hið augljósa að við erum hluti af evrópuregluverkinu og það gilda ákveðnar reglur um það hver megi eiga banka,“ segir Sigðurður.

Umræða sem byggði á getgátum

Hvernig finnst ykkur umræðan hafa verið um ykkar störf. Finnst ykkur hún hafa verið málefnaleg og sanngjörn? Hvernig finnst ykkur viðbrögðin við því sem þið hafið kynnt?

„Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð, eiginlega í alla staði. Það hefur verið mjög gott að finna það. Þessu hefur verið vel tekið. Ég hef sjálfur verið mjög lítið upptekinn af umræðunni um þessa vinnu og yfirleitt hafa menn verið ansi langt frá raunveruleikanum, kannski verið að geta í eyðurnar. Svo maður spáði  ekki það mikið í það,“ segir Sigurður.

„Umræðan hefur verið byggð á ákveðnum getgátum. Það hefur svo sem ekki verið neinn niðurrifstónn í því. Ég held að við höfum fengið gott svigrúm til að vinna þetta í friði. Aðilar virtu trúnað sem þurfti að ríkja um þetta og að þetta tæki tíma,“ segir Benedikt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is