*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 20. júní 2019 11:01

Skilmálar láns í ósamræmi við lög

Í skilmálum skuldabréfs Frjálsa fjárfestingabankans var ekki kveðið á um við hvaða aðstæður vextir lánsins gætu breyst.

Ritstjórn
Ekki var gripið til frekari úrræða í garð Arion enda hafði bankinn sýnt mikinn samstarfsvilja.
Haraldur Guðjónsson

Frjálsi fjárfestingabankinn (FF) braut gegn ákvæðum eldri laga um neytendalán með því að tilgreina ekki í skilmálum um endurskoðun vaxta, verðtryggðs skuldabréfs, við hvaða aðstæður vextir geti breyst. Þetta er niðurstaða Neytendastofu. Stofnunin tók hins vegar ekki afstöðu til uppgjörs á kröfu skuldara og bankans sem í dag tilheyrir Arion banka.

Málið varðaði verðtryggt lán sem tekið var hjá FF í mars 2005 sem bar samtals 4,15% vexti. Í skilmálum var kveðið á um vaxtaendurskoðun en þar sagði að kröfuhafa væri heimilt, að liðnum fimm árum liðnum frá útgáfudegi, að ákveða að hækka eða lækka vextina.

„Ákveði kröfuhafi að breyta vaxtaálagi verður skuldara tilkynnt um það og ástæður þess tilgreindar. Vilji skuldari ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða upp skuldina, án uppgreiðslugjalds, með því vaxtaálagi sem í gildi var fram að breytingunni,“ sagði enn fremur í skilmálunum.

Samhliða lánveitingunni voru skuldara afhentar greiðsluáætlanir sem innhélt sundurliðun afborgana án verðbóta, heildarfjárhæð sem greiða skyldi, árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað. Upplýsingarnar voru reiknaðar með þeirri forsendu að vextir og gjöld yrðu óbreytt út lánstímann og verðbólga á sama tímabili engin.

Árið 2013 tók Arion banki yfir FF og tveimur árum síðar voru vextir lánsins hækkaðir um 0,2 prósentustig. Lántaki kvartaði til Neytendastofu í fyrra. Var þar gerð athugasemd við upplýsingagjöf FF samkvæmt greiðsluáætlun. Þá var einnig gerð athugasemd vegna skilmála um vaxtaendurskoðun enda hefði FF í engu gert grein fyrir því við hvaða aðstæður vextir gætu breyst. Var gerð krafa um að Arion banka yrði bannað að breyta vöxtum á sambærilegum lánum.

Í ákvörðun Neytendastofu segir að staðið hafi til að ljúka málinu með sátt en fallið hafi verið frá því undir rekstri málsins. Stjórnvaldið hafnaði því í ákvörðun sinni að FF hefði brotið gegn upplýsingaskyldu sinni en slík framsetning hafði verið talin heimil samkvæmt dómi Hæstaréttar í öðru máli frá árinu 2017.

Ekki var ágreiningur milli aðila um að skilmálarnir hvað varðar hækkun vaxta væru ekki í samræmi við lög. Staðfesti Neytendastofa það því án mikils rökstuðnings.

„Eftirlit Neytendastofu [...] er allsherjarréttarlegs eðlis og leysir stofnunin ekki úr einkaréttarlegum ágreiningi, s.s. um uppgjör á kröfum eða skuldbindingum aðila. Það fellur því utan valdsviðs Neytendastofu að taka ákvörðun er varða einkaréttarlegt uppgjör milli neytanda og lánveitanda hafi verið gerðar vaxtahækkanir á lánstímanum á grundvelli skilmála skuldabréfs um vaxtaendurskoðun sem brýtur gegn ákvæðum [laga],“ segir í ákvörðuninni.

Samkvæmt gögnum sem stjórnvaldið hafði undir höndum benti ekkert til þess að sambærileg ákvæði væri að finna í lánaskilmálum Arion banka. Þar sem FF væri ekki lengur starfræktur og að Arion hafði sýnt mikinn samstarfsvilja var ekki gripið til frekari aðgerða gegn bankanum.