Þremur dögum áður en tilboðsfrestur í hlutabréf Byrs rann út var skilmálum breytt með þeim afleiðingum að MP banki var í raun dæmdur úr leik. Er þetta meðal þess sem MP banki byggir á í kæru sinni til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála, en greinargerð bankans var skilað til nefndarinnar í síðustu viku.

Bankinn kærði í nóvember í fyrra samþykki Samkeppniseftirlitsins á samruna Íslandsbanka og Byrs. Gert er ráð fyrir því að Áfrýjunarnefndin skili niðurstöðu sinni á næstu vikum, en málið hefur dregist, m.a. vegna þess að formaður og varaformaður nefndarinnar þurftu að segja sig frá málinu vegna vanhæfis.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins byggir kæran einkum á tveimur þáttum. Annars vegar því að Samkeppniseftirlitið hafi um of stuðst við álit Fjármálaeftirlitsins í stað þess að taka sjálfstæða ákvörðun á samkeppnisréttarlegum forsendum.

Þá telur MP banki að söluferlinu hafi um margt verið ábótavant, eins og reyndar Samkeppniseftirlitið tekur fram í ákvörðun sinni, og að í því hafi smærri fjármálafyrirtækjum verið mismunað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.