Halldór Guðmundsson, fyrrum forstjóri tónlistar- og ráðstefnuhússin Hörpu, segir skemmtilega, en jafnframt sorglega sögu af vandræðagangi við leyfisveitingar fyrir Hörpu á Facebook síðu sinni. Halldór var forstjóri hússins frá því í maí 2012, ári eftir að húsið var opnað, fram til 1. mars 2017.

Vandræðagangurinn hafði þá ólíklegu skýringu að auglýsingaskilti sem segir frá viðburðum í húsinu og stendur við Sæbraut var á röngum stað samkvæmt deiliskipulagi, sem sýndi það skaga út í götuna, en vesenið við að koma þeim málum í hreint segir hann minna á dæmisögur Kafka.

Þannig var nefnilega mál með vexti að ekki fékkst fullgilt vínveitinga- og samkomuhaldsleyfi fyrir húsið fyrr en búið væri að gera svokallaða lokaúttekt á byggingunni, sem ekki var hægt að gera fyrr en skilltið yrði samþykkt á þeim stað sem það var.

Því jú ekki vildu ráðamenn hjá borginni að skiltið yrði fært á þann stað sem deiliskipulagið gallaða sagði til um, því þá myndi það vera truflandi fyrir umferð, en samt sem áður kostaði það mikla fjármuni og skriffinskuvesen að breyta skipulaginu, jafnvel kosta til byggingarstjóra og arkitekta fyrir skilti sem þegar var standandi á réttum stað.

„Svo nú hafa allir haft nokkuð að iðja í kringum þetta skilti, án þess að það sé með góðu móti hægt að fullyrða að nokkur skapaður hlutur hafi gerst. Skiltið bara stendur þarna og auglýsir viðburði í húsinu,“ segir Halldór meðal annars í færslu sinni.

„Allt væri þetta saklaus skemmtisaga, ef hún væri ekki svona dýr, og það mætti ekki lesa hana – eins og ýmsar sögur Kafka – sem táknsögu.“

Í færslunni ræðir hann einnig um fleiri atriði sem komu undarlega fyrir sjónir hans sem forstjóra, til að mynda löng og dýr málaferli sem fara þurfti í við eigendur Hörpu, ríki og borg vegna skatta og gjalda, sem þrátt fyrir sigur skiluðu á endanum litlu.

„En það var skammvinn sæla og fljótlega fundu tollheimtumenn leiðir til að halda álögum á húsið svo gott sem óbreyttum, hvað sem leið sigrum Hörpu fyrir dómstólum.“

Meðal annars hafi komið til 300 milljóna króna stimpilgjald vegna nafnabreytingar og sameiningar rekstrarfélaga, 70 milljónir hafi komið til vegna brunabótamats, og svo um 1 milljón á dag í fasteignagjöld.

Loks spyr hann hvort það sé von að honum hafi ekki hugnast að standa í þessu lengur og viljað hætta. „Í millitíðinni hefur hæfara fólk tekið við og gert allt sem í þess valdi stendur til að bæta reksturinn, en ég óttast að eðli starfans sé hið sama og algerlega í anda Sísýfosar sem alltaf velti grjóti upp sömu hlíðina,“ segir Halldór undir lokin.

„Því má það verða huggun harmi gegn, þegar álögurnar hafa endanlega borið reksturinn ofurliði, að skiltið hefur hlotið formlegt samþykki og Harpa fengið lokaúttekt og fullgilt leyfi til samkomuhalds.“