Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir í Morgunútvarpi Rásar 2, að það sé algjörlega óskiljanlegt að vextir séu jafnháir á Íslandi og raun ber vitni. Hún tekur jafnframt fram í viðtalinu að hátt vaxtastig dragi ekki úr einkaneyslu, því ef vöruverð í íslenskum verslunum sé of hátt vegna hárra vaxta versli fólk einfaldlega í útlöndum. Hægt er að lesa frétt Ríkisútvarpsins um málið hér.

Margrét minnir á að nú séu stórar alþjóðlegar verslunarkeðjur á borð við Costco og H&M á leið til Íslands. Þessar keðjur fjármagni sig á mun lægri vöxtum að hennar sögn. Margrét vill að Seðlabanki Íslands lækki vexti. Hún segir að Seðlabankinn gæti lækkað vexti og hækkað þá einfaldlega aftur ef að lækkunin yrði til þess að auka einkaneyslu um of.

Hún segir að þetta sé ekki flókið, en þessi skref séu hins vegar ekki tekin til að búa til almennilega samkeppnishæfni hér á landi. Eins og sakir standa eru vextir bankans 5%. Í síðustu ákvörðun peningastefnunefndar var ákveðið að halda þeim óbreyttum.