Arion banki mun á morgun veita skilvísum einstaklingum í viðskiptum við bankann sérstakan afslátt af greiðslum síðasta árs vegna lána þeirra hjá bankanum. Upphæð sem nemur afslættinum verður lögð inn á reikning þeirra hjá Arion banka, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

„Að langstærstum hluta er um að ræða afslátt vegna íbúðalána. Nemur afslátturinn tveimur gjalddögum síðasta árs miðað við að 12 gjalddagar hafi verið greiddir, eða 16,7% af greiddum gjalddögum. Einnig er veittur 30% afsláttur af vaxtagreiðslum síðasta árs vegna yfirdráttarlána,“ segir í tilkynningunni. Kostnaður við afsláttinn er áætlaður um 2,5 milljarðar króna. „Þar með er kostnaður bankans vegna aðgerða er snúa að einstaklingum og heimilum orðinn rúmir 40 milljarðar króna sem er rúmum 5 milljörðum umfram það svigrúm bankans sem skapaðist við yfirtöku lánanna.“

Í tilkynningunni segir ennfremur að frá stofnun Arion banka hafi aðgerðir bankans fyrst og fremst beinst að þeim hópi viðskiptavina sem glímt hafa við mestan greiðslu- og skuldavanda. Því átaki fari að ljúka, og þar með verði ákveðin kaflaskil í starfsemi bankans. „Aðgerðin nú er annars eðlis og snertir alla skilvísa lánþega bankans. Hún kemur í kjölfar yfirtöku bankans á lánasafni þrotabús Kaupþings.

Að meðaltali nemur greiðsla vegna íbúðalána 125 þúsund krónum og greiðsla vegna yfirdráttalána 13 þúsund krónum. Samtals fá um 33 þúsund viðskiptavina bankans greitt til baka frá Arion banka föstudaginn 27. janúar.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion, segir í tilkynningu að bankinn vilji nota tækifærið og sýna skilvísum viðskiptavinum þakklætisvott. „Við sem störfum hjá Arion banka höfum undanfarin ár eða frá stofnun bankans fyrst og fremst beint sjónum okkar að úrlausnarmálum viðskiptavina sem glímt hafa við hvað mestan fjárhagsvanda, ásamt því að byggja upp nýjan og traustan banka. Þar hefur umtalsverður árangur náðst. Nýverið tók svo bankinn yfir íbúðalánasafn sem verið hafði í eigu þrotabús Kaupþings og fékk þar með fullt forræði yfir lánasafninu. Hvort tveggja markar ákveðin kaflaskil. Því viljum við nota tækifærið og sýna skilvísum viðskiptavinum okkar þennan þakklætisvott fyrir samstarfið á undanförnum þremur árum.“