Skiptar skoðanir eru um ágæti frumvarpsdraga um breytingar á samkeppnislögum. Samkeppnisyfirvöld telja þau veruleg vonbrigði og að í þeim felist veruleg veiking á gildandi rétti. Afturámóti kveður við annan tón hjá öðrum er frumvarpið snertir.

„Ég sé ekki annað en að þessar fyrirhuguðu breytingar eigi að vera jákvæðar fyrir alla aðila, neytendur, eftirlitið og atvinnulífið. Breytingarnar miða að því að færa löggjöfina hér á landi meira til samræmis við við það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er undarlegt að halda því fram að með því séum við að skerða stöðu neytenda. Ég myndi halda að því væri öfugt farið þar sem þessi lönd eru einmitt þekkt fyrir sterka neytendavernd,“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar í upphafi síðustu viku. Þar má meðal annars finna tillögur sem fella úr gildi umdeildar breytingar sem urðu á lögunum árið 2011. Má þar nefna heimild Samkeppniseftirlitsins (SKE) til íhlutunar í rekstur fyrirtækja án þess að brot hafi átt sér stað. Umrædda heimild var að finna í eldri samkeppnislögum en hún var felld út árið 2005.

„Þegar heimildin kom inn þá lögðum við áherslu á að vanda umgjörð hennar og opnuðum víðtækt umsagnarferli með hagsmunaaðilum þar sem þeim gafst kostur á að koma á framfæri hvernig best væri að standa að slíkum rannsóknum. Í framhaldinu settum við sérstakar málsmeðferðarreglur um markaðsrannsóknir til að vanda eins og kostur er umgjörð slíkra rannsókna,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE. „Rannsóknarheimildinni var beitt þegar SKE framkvæmdi markaðsrannsókn á eldsneytismarkaði. Sú rannsókn leiddi til aðgerða gagnvart stjórnvöldum, auk þess að niðurstöður hennar nýttust við rannsókn á samrunum á eldsneytis- og dagvörumarkaði. Þannig hefur heimildin nýst vel þótt ekki hafi hingað til reynst nauðsynlegt að grípa til íhlutunar.“

„Það sem stuðaði mig, á þeim tíma er íhlutunarheimildin kom inn, er að hún er afar víðtæk  og eftirlitið hefur hana þótt fyrirtæki hafi ekki unnið sér neitt til sakar annað en að standa sig vel,“ segir Hörður Felix Harðarson, lögmaður og fyrrverandi aðjúnkt í samkeppnisrétti við lagadeild HÍ. „Heimildin er algjörlega óþörf og beiting hennar  alfarið háð mati eftirlitsins. Að mínu mati eru aðrar reglur samkeppnislaganna nægilega strangar og SKE getur ávallt gripið inn í ef fyrirtæki misstíga sig. Það er feikinóg.“

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .