Undanfarin misseri hefur íslenskur vinnumarkaður hægt og bítandi verið að rétta úr kútnum og dregið hefur úr skráðu atvinnuleysi frá því að það náði hámarki árið 2010. Í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka er þó bent á að atvinnuleysi mælist nú þremur prósentustigum hærra en á sama tíma árið 2008, langtímaatvinnulausum hefur fjölgað, starfandi einstaklingum fækkað og meðalvinnutími hefur styst.

Haldi umsvif í þjóðarbúskapnum áfram að aukast má gera ráð fyrir áframhaldandi lækkun atvinnuleysis sökum aukinnar vinnuaflseftirspurnar, að mati greiningardeildarinnar. Bæði vinnumarkaðskannanir Hagstofunnar og mælingar Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi fyrir fyrstu mánuði ársins sýni jákvæða þróun á vinnumarkaði, en atvinnuleysi í maí hefur ekki verið lægra frá árinu 2008.

Í Markaðspunktunum er fjallað um skilvirkni vinnumarkaðarins, þ.e. sambands atvinnuleysis og fjölda lausra starfa. Í raun er um að ræða samband eftirspurnar og framboðs á vinnuafli. Fyrir hrun hreyfðust atvinnuleysi og fjöldi lausra starfa með nokkuð hefðbundnum hætti, en svo virðist sem það hafi breyst í kjölfar hrunsins 2008. Fjöldi lausra starfa hefur verið stöðugur, en atvinnuleysi meira en þekktist fyrir hrun. Bendir þetta til þess að skilvirkni íslensks vinnumarkað hafi minnkað.

Merki eru þó um að frá árinu 2010 hafi skilvirkni vinnumarkaðarins aftur farið vaxandi og er það niðurstaða greiningardeildarinnar að um tímabundið ástand sé að ræða. Kerfislægar breytingar á íslenska vinnumarkaðnum hafi verið takmarkaðar, ef einhverjar. Því séu litlar líkur á öðru en að atvinnuleysi á Íslandi haldi áfram að dragast saman eftir því sem efnahagsumsvif aukist að nýju og fjöldi lausra starfa eykst.