Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefur ekki tekið ákvörðun um hvort það hyggist kaupa 49% hlut í Azores Airlines, en kaupunum fylgja fjölmörg skilyrði af hálfu stjórnvalda á eyjunum.

Flugfélagið er dótturfélag SATA Air Açores, en það er að fullu í eigu stjórnvalda portúgalska sjálfstjórnarsvæðisins á Asoreyjum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku var Loftleiðir eina félagið sem komst í gegnum fyrstu umferð einkavæðingarferlis félagsins.

Erlendur Svavarsson markaðsstjóri Loftleiða segir í samtali við kínverska fréttastofu að með því að komast í gegnum fyrstu umferðina fái félagið meiri upplýsingar um stöðu flugfélagsins á eyjunum. „Eftir að við höfum farið í gegnum og gert úttekt á þessum upplýsingum, munum við ákveða hvort við munum fara í viðræður um næstu skref ferlisins,“ segir Erlendur.

Skulda 25 milljarða en vilja halda í nafn og núverandi flugleiðir

Þó er vitað að skuldir félagsins nema um 25,1 milljarði íslenskra króna, en til viðbótar við þær byrðar mun væntanlegur kaupandi þurfa að uppfylla ýmis skilyrði stjórnvalda.

Þar á meðal að áfram verði haldið uppi reglubundnum ferðum frá höfuðborg eyjanna, Ponta Delgada, til meginlands Portúgals, sem og nokkuð reglulegra ferða til annarra eyja í klasanum auk Madeira, sem er annar portúgalskur eyjaklasi á Atlantshafi.

Jafnframt að áfram verði flogið til Frankfurt í Þýskalandi, Boston og Oakland í Bandaríkjunum og Toronto í Kanada. Loks þarf væntanlegur kaupandi að halda í nafn félagsins og ráða starfsfólk frá eyjunum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um möguleg kaup Icelandair, í gegnum Loftleiðir á félögum á Atlantshafinu en félögin horfa til þess að læra af reynslu Icelandair af því að setja upp tengipunkt yfir Atlantshafið . Þar má nefna stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum, sem áður voru einnig portúgalskt sjálfstjórnarsvæði, sem eru í samstarfi við Loftleiðir og horfa til þess að félagið eignist hlut í ríkisflugfélagi eyjanna.

Hér má lesa frekari fréttir um mögulegar fjárfestingar Loftleiða á Atlantshafi: