ÍSAM ehf., Ó. Johnson & Kaaber ehf. og Sælkeradreifing ehf. undirrituðu nýverið sátt við Samkeppniseftirlitið vegna samruna félaganna. Samkvæmt sáttinni eru samrunanum sett skilyrði meðal annars vegna samkeppnishamlandi áhrifa á rakstrarvörur og brauðmarkaði.

Fyrirætlanir um samrunann lágu fyrir í byrjun árs en formleg tilkynning barst eftirlitinu í febrúar. Rannsókn eftirlitsins á samrunanum stóð yfir á vormánuðum og var sáttin undirrituð í lok júlí en ekki birt fyrr en nú vegna anna hjá eftirlitinu.

Í ákvörðuninni segir að rannsókn eftirlitsins hafi leitt í ljós að talsverð samþjöppun yrði á nokkrum mörkuðum vegna samrunans. Var það annars vegar í innflutningi, heildsölu og dreifingu á tannhirðuvörum og rakstursvörum og síðan hvað varðar framleiðslu, innflutning, heildsölu og dreifiungu á kökum, sætabrauði, sultum og hlaupi.

Hið sama gilti um markað fyrir framleiðslu á fersku brauði en eigendur Myllu eru þeir sömu og eiga ÍSAM. Með sáttinni skuldbundu aðilar sig til að hlíta rekstrarlegum aðskilnaði vegna Myllunnar. Þá er einnig kveðið á um aðgerðir til að sporna við neikvæðum áhrifum á markað með rakstursvörur en þau skilyrði eru afmáð í birtri ákvörðun sökum trúnaðarákvæða.