Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, segir að sú tillaga sé til bóta að Bretar og Hollendingar þurfi að staðfesta fyrirvara Alþingis við Icesave-ríkisábyrgðina áður en fjármálaráðherra fær endanlega heimild til að veita hana.

Hann er þó ósáttur við að taka eigi aftur upp viðræður við þjóðirnar tvær árið 2024 eins og miðað er við í breytingartillögum meirihluta fjárlaganefndar Alþingis. Réttara væri að láta ábyrgðina þá alveg renna úr gildi án frekari viðræðna.

Fjárlaganefnd afgreiddi málið úr nefnd á fundi sínum eftir hádegi.

Eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins í morgun var gengið frá texta meirihlutans í nótt og veittu fulltrúar fjögurra flokka í nefndinni álitinu samþykki sitt, þ.e.a.s. Samfylkingar, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar. Framsókn er á móti.

Miðað er við að þriðja umræða um Icesave-ríkisábyrgðina fari fram á Alþingi á fimmtudag en nefndarálitum verður útbýtt á sérstökum þingfundi á morgun.

Vildu takmarka skaðann

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í nefndinni, segir að sjálfstæðismenn standi að umræddum breytingartillögum. Þeir muni þó skila séráliti frá nefndinni til að útskýra sín sjónarmið.

Þegar hann er spurður út í afstöðu sína segir hann að vinna sjálfstæðismanna hafi miðað við það að lágmarka skaðann af þeim Icesave-samningum sem undirritaður hafi verið í byrjun sumars. Málið lítið nú allt öðruvísi út frá því ríkisstjórnin lagði það fram.

Þá hafi til að mynda gildistími samningsins verið því sem næst ótakmarkaður og ábyrgðin sem opinn víxill.

Almenningur á ekki að borga

Höskuldur segir, þegar hann er spurður út í sína afstöðu, að framsóknarmenn hafi frá upphafi barist gegn Icesave-samningunum. Þeir hafi lagt mikla vinnu í að upplýsa þjóðina um hvað þeir feli í sér. „Þetta er skuld sem íslenskur almenningur á ekki að borga," segir hann.

Í öðru lagi hefðu framsóknarmenn viljað setja fyrirvara við ríkisábyrgðina og þeir hefðu farið í það af heilum hug. „Við sögðum hins vegar að við myndum aldrei samþykkja fyrirvara sem væru loðnir, óskýrir og þýddu ekki neitt. Það var ljóst eftir aðra umræðu [um frumvarpið á Alþingi] að sú var raunin. Það fundust ekki þingmenn í stjórnarflokkunum sem skildu fyrirvarana eins."

Eins og fram kom í frétt vefjar Viðskiptablaðsins í morgun leggur meirihluti fjárlaganefndar til tvær meginbreytingar við frumvarpið um Icesave-ríkisábyrgðina.

Annars vegar að liggja þurfi fyrir staðfesting frá Bretum og Hollendingum um að þeir samþykki fyrirvara Alþingis við ábyrgðina áður en fjármálaráðherra fær endanlega heimild til að veita hana.

Og hins vegar að standi eitthvað út af, af Icesave-skuldinni árið 2024, framlengis ábyrgðin ekki sjálfkrafa heldur verði þá teknar upp viðræður að nýju við Breta og Hollendinga.

(Fréttin var uppfærð kl. 16.30).