Skimanir vegna Covid-19 kostuðu ríkissjóð 9,2 milljarða króna árin 2020 og 2021 að því er fram kemur í svari Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins á Alþingi.

PCR próf kostuðu ríkissjóð alls 7,3 milljarða króna, hraðpróf 1,3 milljarða króna og landamæraskimun 2,3 milljarða króna. Þá nam bein kostnaður ríkissjóðs vegna sóttkvíar 215 milljónum króna samkvæmt svarinu, rakning kostaði 16,6 milljónir króna og kostnaður vegna ferðamannavottorða var 331 milljón króna. Alls nemur kostnaðurinn því ríflega 11,4 milljörðum króna.

Hins vegar komu á móti sértekjur upp á 2,2 milljarða króna vegna PCR og hraðprófa svo útlagður kostnaður ríkissjóðs var 9,2 milljarðar króna.

Í svarinu kemur fram að fyrirspurnin byggi á svörum frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Sjúkratryggingum Íslands.