Frystiskipið Pólfoss, skip Eimskipafélagsins, strandaði við eyjuna Altra í Norður-Noregi um kl. 6 í morgun. Ekki urðu slys á áhöfn og ekki vitað um skemmdir á skipi og farmur er óskemmdur.

Á vef mbl.is kemur fram að skipið strandaði á sandgrynningum og ekki hefur verið vart við neinn olíuleka út skipinu, samkvæmt upplýsingum frá Eimskip.

Skipið var að á leið frá Melbu til Álasunds þegar óhappið varð en veður á standstað er gott. Næsta flóð er kl. 13:45 á staðartíma og þá verður metið hvort reynt verði að losa skipið af strandstað. Ekkert er vitað um tildrög strandsins að svo stöddu.

Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem skip Eimskips strandar við Noregsstrendur. Í febrúar 2011 strandaði Goðafoss við Fredrikstad í Østfold. Skipið var þá á leið frá Fredrikstad þegar það tók við niður á skeri. Nokkur olía lak í sjóinn í kjölfarið og enn er óvíst hvert tjón Eimskips verður af málinu, eða öllu heldur tryggingafélags Eimskips.