Togarinn Heinaste, sem er að helmingi í eigu félags Samherja, hefur verið seldur í kjölfar þess að kyrrsetningu skipsins hefur verið aflétt. Kaupandi skipsins er namibískt útgerðarfélag, Tunacor Fisheries, sem starfað hefur í landinu í 60 ár, og veitir meira en 2.100 manns atvinnu að því er segir í tilkynningu á vef Samherja .

Félagið segir að aðrar eignir Samherja í landinu sæti enn kyrrsetningu, en þær séu óverulegar og mál tengd þeim verði leyst á komandi mánuðum í samráði við stjórnvöld en félagið hefur unnið að því að leggja niður alla starfsemi sína í landinu undanfarna mánuði.

Samherji segir að í umfjöllun RÚV um kyrrsetningu skipsins hafi verið farið rangt með hugtök, umfang veiða Samherja í Namibíu og tekjurnar af þeim. Eins og fjallað hefur verið ítarlega um hjá ríkisfjölmiðlinum og öðrum miðlum hafa verið uppi ásakanir um að starfsemi fyrirtækisins í landinu hafi fylgt mútur og spilling, ásamt skattaundanskota.

„Þá var ekki tekið fram að sú fjárhæð sem var tilgreind felur í sér áætlaðar heildartekjur áður en skattar og gjöld hafa verið dregin frá,“ segir í tilkynningu á vef Samherja um nýjustu umfjöllun RÚV um starfsemi fyrirtækisins í afríkuríkinu.

„Í fréttinni var fullyrt að áætlaðar heildartekjur vegna samningsins yfir fimm ára tímabil væru hinn „ólöglegi ágóði“ en ekkert minnst á skatta og gjöld, laun og annan rekstrarkostnað á tímabilinu. Þessi hugtakanotkun Ríkisútvarpsins er fjarstæðukennd enda þýðir orðið „ágóði“ almennt gróði eða hagnaður.“

Jafnframt áréttar Samherji að félög tengd fyrirtækinu hafi greitt andvirði samtals 6,5 milljarða króna til ríkissjóðs Namibíu þau ár sem starfsemin var í landinu og alls 12 milljarða fyrir aflaheimildir, sem að stórum hluta hafi runnið til stofnana og fyrirtækja í eigu namibíska ríkisins.

Loks segir Samherji að þess sé ekki getið í frétt RÚV að félögin utan um útgerðina í Namibíu hafi verið rekin með 950 milljóna króna tapi þegar upp var staðið, fyrir árin 2012 til 2018.