Ný ríkisstjórn hyggst skipta um yfirstjórn Seðlabanka Íslands og breyta lögum um bankann þannig að skipaður verði einn Seðlabankastjóri. Hann á að ráða á faglegum forsendum, að því er fram kemur í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Framsókn hefur samþykkt að verja ríkisstjórnina vantrausti.

Í verkefnaskránni segir að koma eigi á fót peningastefnuráði sem á að fara með ákvarðanir um beitingu allra stjórntækja bankans, þ.e. stýrivaxta, bindiskyldu og lausafjárreglna. Þá á að hefja endurskoðun á peningamálastefnu Seðlabankans.

Skipa á nýja yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins og gera breytingar á yfirstjórn einstakra ráðuneyta. „Erlendir sérfræðingar verða fengnir til starfa til að liðsinna Fjármálaeftirlitinu," segir í verkefnaskránni.

Þá á að kanna hvort og þá hvernig megi styrkja lagaheimildir til að unnt verði að kyrrsetja eignir „ef slíks er þörf til að tryggja hagsmuni þjóðarbúsins, að virtum ákvæðum stjórnarskrárinnar."

Leitað verði leiða til að lækka vexti

Í verkefnaskránni segir einnig, þegar vikið er að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eigi að byggja á fyrirliggjandi áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

„Lögð verður áhersla á frekari kynningu áætlunarinnar gagnvart almenningi. Framvinda áætlunarinnar verður rædd við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og leitað markvissra leiða til að lækka vexti eins fljótt og kostur er og tímasett áætlun gerð um rýmkun hafta," segir í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.