Árni Páll Árnason félags- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram þá hugmynd að mynduð verði valnefnd sem skipuð er þremur til fjórum einstaklingum. Hún hafi það hlutverk að leggja mat á umsækjendur um stöðu framkvæmdarstjóra Íbúðalánasjóðs. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stjórn Íbúðalánasjóðs sem hefur valið þrjá einstaklinga í nefndina.

Viðskiptablaðið sagði í júlí frá því að ráðning nýs framkvæmdarstjóra væri í uppnámi eftir að stuðningur meirihluta stjórnar Íbúðalánasjóðs við ráðningu Yngva Arnar Kristinssonar brást fyrir stjórnarfund þann 8. júlí síðastliðinn. Í tilkynningu stjórnarinnar í dag kemur fram að nefndin sé skipuð vegna þess að ekki hafi tekist full samstaða í stjórn sjóðsins um ráðninguna.

Stjórnin samþykkti tillögu þess efnis að þau Jón Sigurðsson lektor við HR, dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir lektor við hagfræðideild HÍ og Magnús Pétursson ríkissáttarsemjara skipi nefndina. Elín R. Líndal sat hjá við afgreiðslu tillögunnar.