Framleiðsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið mikil að undanförnu og því brýnt að skipa út frystum vörum reglulega.

Að sögn Heimis Ásgeirssonar, verkstjóra í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, rúma frystigeymslur fyrirtækisins 18.000 tonn og nú er í þeim fyrst og fremst makríll og síld auk þess sem þar eru enn um 3.000 tonn af loðnu. Í næstu viku eru ráðgerðar miklar útskipanir.

Heimir segir í frétt heimasíðu Síldarvinnslunnar að það verði handagangur í öskjunni hjá starfsmönnum frystigeymslanna þegar þær hefjast.

„Það var skip í gær sem tók 1.200 tonn og það er von á þremur skipum í næstu viku og þau munu taka um 7.000 tonn. Þessi skip munu fara með farmana til Úkraínu, Portúgals og Eystrasaltslandanna. Þetta verður býsna stíft. Annars fara 500-600 tonn frá okkur í viku hverri í gámum í skip frá Reyðarfirði. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að losa úr geymslunum því síldarvertíð stendur yfir í kjölfar makrílvertíðar og mikið framleitt. Þá er Hákon EA að koma með 700 tonn af frystum makríl og síld á morgun. Hjá okkur er að sjálfsögðu ávallt mikið að gera þegar framleiðsla er mikil í fiskiðjuverinu,“ segir Heimir.