Gengið hefur verið frá samningi milli Eimskipafélags Íslands og Skipafélags Færeyja, Faroe Ship, um sameiginlegt eignarhald félaganna og hefur hann verið samþykktur af stjórnum beggja félaga. Með samningnum er orðin til öflugasta fyrirtækjasamsteypa í flutningastarfsemi á Norður-Atlantshafi og lagður grunnur að hagkvæmari rekstri beggja félaganna og bættri þjónustu við viðskiptavini.

Eimskip og Faroe Ship hafa verið markaðsleiðandi fyrirtæki hvort á sínum heimamarkaði um áratuga skeið, Eimskip í 90 ár og Faroe Ship í 85 ár. Faroe Ship, sem á færeysku nefnist Skipafelagið Føroyar, var stofnað árið 1919 og er eitt elsta fyrirtækið í Færeyjum með rúmlega 200 starfsmenn og rekur nú þrjú skip í siglingum milli Færeyja, Skotlands og Danmerkur. Ársvelta Faroe Ship er yfir 3 milljarðar króna. Heildarvelta Faroe Ship og Eimskips í Færeyjum er áætluð 4?5 milljarðar króna eftir sameiningu. Faroe Ship rekur fjórar skrifstofur í Danmörku ásamt flutningsmiðlunarfyrirtækinu Spedition Atlantic sem er í Danmörku og er sérhæft í landflutningum og flutningum á frystum og kældum sjávarafurðum um alla Evrópu. Áætluð samlegðaráhrif og EBITDA framlegð nema 500 milljónum króna á ársgrundvelli í samstæðu Eimskips.

Núverandi hluthafar Faroe Ship munu með samningnum fá DKK 100 milljóna greiðslu og eignast tæplega 6% hlut í Eimskip. Burðarás hf. mun á móti eiga rúm 94% í Eimskip.

Unnið verður að því að samhæfa rekstur flutningakerfa félaganna til og frá Íslandi og Færeyjum, jafnframt því sem stuðlað verður að aukinni hagkvæmni og bættri nýtingu þeirra. Að auki verður lögð áhersla á að samhæfa starfsemi félaganna í Danmörku og efla sölu- og markaðsstarf á öðrum markaðssvæðum. Stefnt er að því að Faroe Ship yfirtaki núverandi rekstur Eimskips í Færeyjum, en Eimskip hefur rekið þar eigin starfsemi frá árinu 1990.

Með samningnum mun árleg heildarvelta Eimskips samstæðunnar verða 28-30 milljarðar króna og EBITDA hagnaður 3-3,5 milljarðar króna, í samræmi við nýja stefnumörkun Eimskips um bætta afkomu og vöxt félagsins. Er samningurinn við eigendur Faroe Ship frekara skref í að efla þjónustu Eimskips á Norður-Atlantshafi.