*

föstudagur, 24. september 2021
Innlent 15. september 2021 11:15

Skipar starfshóp um CBD-olíu

„Ráðuneytið hefur orðið vart við mikinn áhuga á CBD- olíu og mögulegri framleiðslu og markaðssetningu á henni.“

Ritstjórn
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Haraldur Guðjónsson

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hyggst setja á fót starfshóp til að fara yfir núgildandi löggjöf á notkun og framleiðslu CBD-hampolíu, sem unnin er úr kannabisplöntum. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.  

CBD-olía er ein fjölmargra afurða sem vinna má úr iðnaðarhampi. Í tilkynningunni segir að lagabreyting hafi verið gerð í júní sem heimilar innflutning á fræjum til ræktunar á iðnaðarhampi, sem innihalda lágt THC gildi og flokkast því ekki sem vímugjafar. Engu að síður heimilar núgildandi löggjöf ekki framleiðslu og markaðssetningu á CBD-olíu sem fæðubótaefni á Íslandi.

„Olían er er e.t.v. sú afurð sem þykir hvað verðmætust og mikil eftirspurn er eftir henni um þessar mundir. Ráðuneytið hefur orðið vart við mikinn áhuga á CBD- olíu og mögulegri framleiðslu og markaðssetningu á henni,“ segir í tilkynningunni.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur óskað eftir tilnefningum á fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins, Lyfjastofnunar og Matvælastofnunar í starfshópinn.

Viðskiptablaðið fjallaði um íslenska fyrirtækið Birtu CBD, sem hyggst flytja inn og framleiða vörur sem innihalda CBD-olíu, þegar olían verður lögleg hérlendis. Rapparinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, er einn þeirra sem stendur að baki fyrirtækisins en hann segir að CBD olían geti gagnast fólki sem á við kvíða-, streitu- og svefnavandamál að stríða.

Stikkorð: CBD-olía