Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra hefur skipað starfshóp til að fara yfir skólpmál í þéttbýli. Hópurinn mun funda í næstu viku. Tilefnið er umfjöllun RÚV um skelfilegt ástand fráveitumála, ekki síst í Árborg.

Sigurður Ingi segir, á vefsíðu sinni, að kalla þurfi eftir upplýsingum frá sveitarfélögum til að fá yfirlit yfir stöðuna. „Upplýsingar um fráveitur eru af skornum skammti og þarf að laga það og bæta úr skráningu. Einnig þarf að setja viðmiðunargildi um efnainnihald skólps sem losað er frá iðnaðarstarfsemi og skerpa á ábyrgð leyfishafa svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi bendir á að Íslendingar byggi á upplfiun sem tengist hreinleika og sérkennum landsins. Matvælaöfluga hér sé öflug og íslensk framleiðsla hafi sterka ímynd. Þá sé ferðaþjónusta sívaxandi í íslensku hagkerfi.

„Skólp- og fráveitumálin eru grundvallar umhverfismál sem ekki hefur verið sinnt nógu vel í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það geta allir verið sammála um að þessi mál þurfa einfaldlega að vera í lagi. Við kynnum landið okkar sem hreint og fagurt og byggjum á upplifun sem tengist hreinleika og sérkennum landsins,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.